Selfoss tapaði dýrmætum stigum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld þegar Stjarnan kom í heimsókn í Set-höllina. Lokatölur urðu 20-25.
Selfoss byrjaði vel í leiknum og leiddi 8-3 eftir fimmtán mínútna leik. Þá tóku Stjörnumenn við sér og minnkuðu muninn jafnt og þétt en Selfyssingar voru á sama tíma klaufar í sókninni og stóðu vörnina ekki nógu vel. Stjarnan jafnaði 11-11 fyrir leikhlé og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Stjarnan tók frumkvæðið á upphafsmínútum seinni hálfleiks og leiddi lengst af með 2-3 mörkum. Selfyssingar náðu aldrei að sýna sínar bestu hliðar og á síðustu tíu mínútunum jókst munurinn enn frekar en Adam Thorstensen, markvörður Stjörnunnar, var maður leiksins með 55% markvörslu.
Ragnar Jóhannsson lék ekki með Selfossliðinu í kvöld vegna meiðsla en það gladdi Selfyssinga að Guðmundur Hólmar Helgason sneri aftur inn á völlinn í kvöld eftir langvarandi meiðsli og lék nokkrar mínútur, aðallega í vörninni.
Óskiljanleg kaflaskipti
„Fyrstu fimmtán mínúturnar voru mjög flottar. Svo verða einhver kaflaskipti í leiknum hjá okkur sem eru bara óskiljanleg og við erum að spila mjög illa eftir það í 45 mínútur. Við skoruðum bara 9 mörk í seinni hálfleik sem er arfaslakt og vörnin datt niður hjá okkur um leið. Við erum að fá boltann á döpru tempói, ég sjálfur var að taka léleg skot og þegar við fáum færi þá erum við að nýta þau illa. Það er virkilega svekkjandi að fara með þetta á bakinu til útlanda,“ sagði Einar Sverrisson, markahæsti leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfoss leggur upp í langferð á morgun og mætir Jerusalem Ormož í seinni leik liðanna í Evrópubikarnum í Slóveníu á laugardag. Selfyssingar voru ólíkir sjálfum sér í kvöld en Einar telur ekki að Evrópuverkefnið hafi verið að trufla þá.
„Ég held ekki. Ég var ekki mikið að spá í þessu útlandaævintýri í kvöld, ég veit ekki einu sinni hvað bærinn heitir sem við erum að fara til. Mér finnst leiðinlegt ef raunin er sú að menn hafi ekki getað einbeitt sér að verkefni kvöldsins því þetta voru virkilega dýrmæt stig sem við töpuðum hérna. Við þurfum að fara að tosa í einhverja punkta, þetta er ekki boðlegt og við vitum það best sjálfir að við þurfum aldeilis að gyrða okkur í brók,“ sagði Einar ennfremur.
Einar markahæstur
Einar var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 4, Ísak Gústafsson og Gunnar Flosi Grétarsson 3, Karolis Stropus 2 og Guðjón Baldur Ómarsson 1. Sölvi Ólafsson varði 7/1 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Vilius Rasimas varði 2/1 skot og var með 17% markvörslu.
Selfoss hefur aðeins unnið einn leik í deildinni í vetur og er í 9. sæti með 2 stig. Stjarnan er í 2. sæti með 8 stig.