Kvennalið Selfoss tapaði 1-5 gegn Fylki í Pepsi-deildinni í dag. Fylkiskonur gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan var 0-5 í leikhléi.
Fylkir komst yfir strax á 2. mínútu leiksins þegar boltinn barst innfyrir þar sem Nicole McClure, markvörður Selfoss, lenti í samstuði við sóknarmann Fylkis á markteignum og boltinn fór í netið. Tveimur mínútum síðar áttu Fylkiskonur skot í þverslána og niður í teiginn þar sem ein gestanna var fyrst að átta sig og setti boltann í netið.
Staðan var 0-2 eftir fjórar mínútur en McClure var greinilega eftir sig eftir samstuðið í upphafi leiks og fór hún meidd útaf á 6. mínútu og Dagný Pálsdóttir leysti hana af.
Fylkiskonur réðu ferðinni í fyrri hálfleik og þær komust í 0-3 á 20. mínútu þegar Dagný missti af boltanum í úthlaupi og boltinn féll á frían leikmann sem skoraði af öryggi í autt markið.
Selfosskonur misstu allan mátt eftir þriðja mark Fylkis og áttu ekki færi í fyrri hálfleik. Fylkir nýtti sín færi hins vegar vel og á 32. mínútu var staðan orðin 0-4 eftir fyrirgjöf frá vinstri og slæma völdun Selfyssinga í teignum.
Fimmta mark gestanna kom á 45. mínútu eftir aukaspyrnu frá hægri þar sem laus maður skoraði úr þröngu færi á fjærstöng.
Eftir arfaslakan fyrri hálfleik voru Selfyssingar hressari eftir leikhlé og Fylkir fékk ekki færi fyrr en eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Fram að því höfðu Selfyssingar átt ágætar sóknir, Anna María Friðgeirsdóttir og Valorie O’Brien áttu báðar skot rétt framhjá rammanum á fyrsta korterinu. Á 64. mínútu tók Guðmunda Óladóttir á sprett upp hægri kantinn og inn að marki Fylkis þar sem markvörður gestanna varði vel frá henni af stuttu færi.
Á 71. mínútu átti Fylkir skot utan af kanti sem lenti ofan á þverslánni á marki Selfoss. Mínútu síðar minnkaði Guðmunda muninn í 1-5 þegar Kristrún Antonsdóttir stakk boltanum innfyrir á Guðmundu sem lék á markvörð Fylkis og skoraði af öryggi.
Síðustu tuttugu mínúturnar voru tilþrifalitlar en síðasta færið áttu gestirnir á 79. mínútu eftir skyndisókn þar sem Þóra Margrét Ólafsdóttir bjargaði á línu fyrir Selfoss.
Með sigrinum fór Fylkir uppfyrir Selfoss á stigatöflunni en Selfoss er nú í 8. sæti með 7 stig.