Tinna Sigurrós Traustadóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til næstu þriggja ára.
Tinna, sem er 18 ára, var máttarstólpi í sterku Selfossliði sem sigraði Grill66-deildina í vetur og vann sér sæti í Olísdeildinni. Tinna var m.a. markahæsti leikmaður deildarinnar en hún skoraði 162 mörk í 19 leikjum, sem gera 8,5 mörk að meðaltali í leik.
Í tilkynningu frá Selfoss segir að þar á bæ séu menn og konur gríðarlega ánægð með að Tinna skuli framlengja og verður spennandi að fylgjast með Selfossliðinu næsta vetur í efstu deild. Fleiri fregna af leikmannamálum meistaraflokks kvenna er að vænta á næstu dögum.