Tinna Soffía Traustadóttir fyrirliði kvennaliðs Selfoss hefur tekið þá ákvörðun að hætta í handbolta og er þessi ákvörðun tekin í samráði við lækna hennar.
Tinna hefur verið að glíma við mikla erfiðleika eftir að hún þrí nefbrotnaði í vetur og eru afleiðingar þess búnar að vera mjög alvarlegar.
„Ég held ég sé nú búin að fara í allar þær rannsóknir sem hægt er að framkvæma og niðurstaða fundarins með mínum læknum er einfaldlega að ég má ekki fá annað höfuðhögg og þar af leiðandi ekki spila meiri handbolta,“ sagði Tinna í samtali við fimmeinn.is.
Ég tók þá óskynsamlegu ákvörðun í leiknum á móti Fram eftir að ég þrí nefbrotnaði þar og fékk snert af heilahristing að segja að ég væri í lagi og hélt áfram að spila. Ég skil mjög vel núna að þessi ákvörðun þar sem keppnisskapið fór lengra en skynsemin að hún hefði einfaldlega getað verið afar afdrifarík. Ég slapp en lífið er of dýrmætt og allt í kringum mig svo núna læt ég skynsemina ráða.
Tinna tilkynnti liðsfélögum sínum þessa ákvörðun í gær og sagði það hafa verið erfiða stund, en einfalega nauðsynlega. „Það var erfitt og það féllu mörg tár en þær vita að ég hverf þó ekki alveg úr íþróttahúsinu eða akademíunni. Ég mun fylgjast áfram með þeim og vera á bekknum til að berja þær áfram.“