HSK-Selfoss sendi ungt og efnilegt lið til keppni á bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins sem haldin var í Kaplakrika í Hafnarfirði síðastliðinn laugardaginn. HSK-Selfoss varð í 6. sæti í heildarstigakeppninni eftir harða baráttu liðanna í 5.-7. sæti.
Hlauparinn reynslumikli, Kristinn Þór Kristinsson, kom sá og sigraði í 1.500 m hlaupi karla á sínum ársbesta tíma 4:00,70 mín og bætti hann þar með sitt eigið HSK met í flokki 30-34 ára um tæpar 7 sekúndur.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, sem er aðeins 15 ára gamall, spreytti sig í kúluvarpskeppninni og hafnaði í 5. sæti. Hann kastaði kúlunni 10,98 m og er það nýtt HSK met í flokki 15 ára pilta með 7,26 kg karlakúlu. Metið fer þó ekki úr Langsstaðafjölskyldunni en gamla metið var í eigu Einars Hjálmarssonar, föðurbróðurs Hjálmars.
Sem fyrr segir tefldi HSK-Selfoss fram ungu liði sem stóð sig mjög vel í keppni við þau allra bestu. Liðinu er mikill styrkur í því að hafa reynsluboltana Fjólu Signýju Hannesdóttur og Kristinn Þór innanborðs en í liðið vantaði tvo af sterkustu keppendum HSK-Selfoss, þau Evu Maríu Baldursdóttur og Örn Davíðsson, en hvorugt þeirra átti heimangengt að þessu sinni.