Ægir fékk Gróttu í heimsókn í Þorlákshöfn í kvöld í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Eftir 90 vindbarðar mínútur sættust liðin á skiptan hlut, 2-2.
Gróttumenn voru sprækari í upphafi og þeir komust yfir með marki úr vítaspyrnu á 11. mínútu eftir að boltinn fór í höndina á varnarmanni Ægis. Ægismenn svöruðu hins vegar hressilega fyrir sig, Atli Rafn Guðbjartsson skallaði fyrirgjöf David Bjelobrk í netið á 20. mínútu og fimm mínútum síðar negldi Stefan Dabetic boltanum úr öftustu línu fram á Brynjólf Þór Eyþórsson sem slapp innfyrir og skoraði.
Bæði lið áttu ágætar sóknir í kjölfarið en Grótta jafnaði metin með svakalegu aukaspyrnumarki af löngu færi á 45. mínútu. Nokkrum andartökum seinna fékk Anton Fannar Kjartansson, varnarmaður Ægis, að líta rauða spjaldið fyrir að brjóta á leikmanni Gróttu sem var að sleppa í gegn en Anton var ekki aftasti varnarmaður og ákvörðun dómarans ein sú slakasta sem sést hefur á Þorlákshafnarvelli í sumar. Ægismenn voru brjálaðir út í dómarann en náðu að hemja sig eftir tebolla í hálfleik.
Grótta sótti mun meira í seinni hálfleiknum en Ægisvörnin stóð vaktina vel og Stefán Þór Hannesson átti góðan leik í markinu.
Stigið sem botnlið Ægis fékk í dag þýðir að liðið á ennþá möguleika á að halda sæti sínu í deildinni en til þess þarf Ægir að sigra í síðustu fjórum leikjunum og treysta á að þrjú næstu lið fyrir ofan misstigi sig illilega á lokasprettinum.