Tíu Hamarsmenn náðu í stig

Hamar og Völsungur skildu jöfn í 2. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í dag, 2-2.

Fyrri hálfleikur var ekki nema átta mínútna gamall þegar gestirnir voru komnir með 0-1 forystu og skömmu síðar syrti enn frekar í álinn fyrir Hvergerðinga þegar Garðar Geirsson fékk að líta rauða spjaldið. Manni færri náði Hamar að jafna og þar var á ferðinni markahrókurinn Haraldur Hróðmarsson á 23. mínútu.

Staðan var 1-1 í hálfleik en gestirnir komust yfir strax á 4. mínútu síðari hálfleiks. Hvergerðingar lögðu þó ekki árar í bát og á 60. mínútu skoraði Haraldur annað mark sitt og jafnaði leikinn. Bæði lið fengu færi til að klára leikinn en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan var jafntefli.

Eftir leikinn er Hamar í 9. sæti með 30 stig og á liðið ekki lengur möguleika á sæti í 1. deild. Frá því Hamar var á toppnum í upphafi ágústmánaðar hafa þeir aðeins náð í eitt stig í síðustu fimm leikjum.

Fyrri greinJafnt þegar einvígið er hálfnað
Næsta greinSelfoss fékk silfrið