
Hamar vann dramatískan sigur á KÁ í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld. Manni færri skoruðu Hvergerðingar sigurmarkið í uppbótartíma.
Liðin mættust í hörkuleik á Ásvöllum í Hafnarfirði og þar var fátt að frétta í fyrri hálfleik, utan hvað Alfredo Sanabria uppskar tvö gul spjöld og þar með eitt rautt. Hamarsmenn voru því manni færri allan seinni hálfleikinn.
Færin voru ekki mörg í seinni hálfleiknum, Hamar varðist skipulega og allt leit út fyrir að niðurstaðan yrði 0-0 jafntefli. Atli Þór Jónasson var ekki sammála því og á fyrstu mínútu uppbótartímans kom hann boltanum í netið og tryggði Hamri 0-1 sigur.
Þetta var annar sigur Hamars í riðlinum og Hvergerðingar sitja nú í toppsæti hans með 6 stig.