Hamar heimsótti KÁ á Ásvelli í Hafnarfirði í 4. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Þrátt fyrir að vera manni færri í 80 mínútur tókst KÁ mönnum að vinna 4-3 sigur.
Hamarsmenn voru á hælunum í upphafi leiks og eftir sex mínútur var staðan orðin 2-0 en Adam Frank Grétarsson og Bjarki Sigurjónsson skoruðu fyrir KÁ á 4. og 6. mínútu. Fimm mínútum síðar var Þóri Eiðssyni vísað af velli og Hamarsmenn töldu hag sínum borgið því í kjölfarið skoruðu Máni Snær Benediktsson og Guido Rancez og staðan 2-2 í hálfleik.
KÁ menn opnuðu seinni hálfleikinn af krafti, með mörkum frá Rómeó Mána Ragnarssyni og Baldri Erni Þórarinssyni. Staðan 4-2 og hálftími eftir af leiknum. Hamar reyndi allt hvað af tók að minnka muninn en tókst það ekki fyrr en á 89. mínútu að Rancez skoraði annað mark sitt og lokatölur leiksins urðu 4-3.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 5. sæti með 21 stig og KÁ er einu sæti neðar með 20 stig.