Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni/Fylki í Grill-66 deild kvenna í handbolta í kvöld þegar liðin mættust í Grafarvoginum, 17-27.
Leikurinn var í öruggum höndum Selfyssinga allan tímann og þær leiddu í leikhléi, 9-13. Forskot Selfoss jókst til muna í seinni hálfleik þar sem Roberta Strope fór mikinn en hún skoraði tíu mörk í leiknum og stóð vörnina vel.
Þetta var annar leikur Selfoss í deildinni í vetur, og annar sigurinn, en liðið er í toppsæti deildarinnar með 4 stig.
Roberta var sem fyrr segir markahæst í liði Selfoss en aðrir markaskorarar voru Kristín Una Hólmarsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir sem skoruðu 4 mörk, Emilía Ýr Kjartansdóttir með 3 mörk, Tinna Soffía Traustadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Rakel Hlynsdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hvor.