Fjöldi leikja fór fram í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Uppsveitir, Árborg og KFR náðu öll í sigra en Hamar tapaði í toppslag á heimavelli.
Uppsveitir unnu öruggan sigur á Létti á Flúðum. George Razvan kom Uppsveitum yfir strax á 3. mínútu en Léttismenn jöfnuðu undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í hálfleik. Í seinni hálfleik höfðu Uppsveitir völdin og bættu við þremur mörkum. Aron Freyr Margeirsson skoraði tvisvar og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson bætti fjórða markinu við á 90. mínútu þannig að lokatölur urðu 4-1.
Árborgurum gekk illa að opna vörn botnliðs KM en fyrstu tvö mörk Árborgar komu úr föstum leikatriðum. Ingi Rafn Ingibergsson kom Árborg yfir á 30. mínútu með marki úr vítaspyrnu og hann skoraði svo beint úr hornspyrnu á 82. mínútu. Hartmann Antonsson kom inn af bekknum til þess að skora þriðja mark Árborgar í uppbótartímanum og Árborg vann 0-3 sigur.
Rangæingar lentu í kröppum dansi gegn liði Álafoss í Mosfellsbæ. Heimamenn komust yfir strax á 2. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Á síðasta hálftíma leiksins tóku leikmenn KFR sig hins vegar til og völtuðu yfir Mosfellinga. Aron Birkir Guðmundsson jafnaði á 57. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Bjarna Þorvaldssyni, Ævari Má Viktorssyni og Stefáni Bjarka Smárasyni. Lokatölur 1-4.
Í sama riðli tapaði Hamar á heimavelli þegar topplið Ýmis kom í heimsókn á Grýluvöll. Gestirnir komust yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Sören Balsgaard jafnaði fyrir Hamar úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks. Ýmismenn voru hins vegar sterkari á lokakaflanum, bættu við tveimur mörkum og tryggðu sér 1-3 sigur.
Staðan í D-riðlinum er þannig að Hamar er í 2. sæti með 17 stig en KFR í 4. sæti með 13 stig. C-riðillinn er ekki eins jafn en þar eru Uppsveitir og Árborg jöfn á toppnum með 21 stig og átta stiga forskot á næsta lið.