Tíu Selfyssingar fögnuðu sigri

Ingi Rafn Ingibergsson í leik með Selfyssingum sumarið 2020. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur á KF á heimavelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og halda Selfyssingar sér því ennþá í baráttunni um sæti í 1. deild að ári.

Fyrr í dag vann Þróttur Vogum Kórdrengi og það var því ljóst að Selfyssingar yrðu hreinlega að ná í stig í dag til þess að halda sér í baráttunni. Eftir leiki dagsins eru Kórdrengir efstir með 43 stig en Þróttur og Selfoss hafa 40 stig og Þróttarar mun betra markahlutfall. Þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

Það var hart barist á Selfossvelli í dag en gestirnir voru á undan að skora en þeir brutu ísinn á 31. mínútu. Lokakafli fyrri hálfleiks var hins vegar mjög skrautlegur þar sem Selfyssingar skoruðu þrjú mörk á sex mínútum og staðan var 3-1 í hálfleik.

Ingi Rafn Ingibergsson jafnaði með góðu skallamarki á 39. mínútu eftir sendingu frá Ingva Rafni Óskarssyni, á 44. mínútu skoraði Þór Llorens Þórðarson mark úr aukaspyrnu af 30 metra færi og mínútu síðar lagði Þorsteinn Daníel Þorsteinsson boltann á Ingva Rafn sem skoraði af öryggi úr teignum.

Seinni hálfleikurinn var fjörugur og bæði lið áttu góðar sóknir. Vendipunktur varð í leiknum á 57. mínútu þegar Gylfi Dagur Leifsson fékk rautt spjald fyrir að slá frá sér eftir að brotið hafði verið á honum. Dómarinn hafði engin tök á leiknum í kjölfarið og tæklingarnar flugu á víxl.

Selfyssingar reyndu að sækja áfram en eftir að gestirnir minnkuðu muninn í 3-2 á 81. mínútu hægðu heimamenn mjög á leiknum og náðu að halda út.

Næsti leikur Selfoss er gegn ÍR á útivelli næstkomandi laugardag.

Fyrri greinHamar undir eftir fyrri leikinn
Næsta greinSelfoss enn í stigaleit