Tíu Selfyssingar töpuðu í baráttuleik

Selfyssingar lutu í gras þegar þeir mættu Stjörnunni í Pepsi-deild karla á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur voru 1-3 eftir fjörugan leik.

Logi Ólafsson gerði nokkrar breytingar á byrjunarliði Selfoss en Endre Brenne kom inn eftir leikbann og Agnar Bragi Magnússon var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í sumar. Ólafur Finsen og Moustapha Cissé komu einnig inn í byrjunarliðið fyrir Tómas Leifsson og Joe Tillen.

Eftir aðeins tveggja mínútna leik var fyrirliði Selfoss, Stefán Ragnar Guðlaugsson, borinn meiddur af velli. Stefán virtist hafa misstigið sig og var jafnvel óttast að hann hefði fótbrotnað.

Endre Ove Brenne færði sig yfir í miðvörðinn og ekki skánaði ástandið á 13. mínútu þegar hann fékk beint rautt spjald fyrir brot á Atla Jóhannssyni sem var að sleppa innfyrir. Dómari leiksins, sem átti Stjörnuleik, var ekki í vafa um alvarleika málsins og sendi Norðmanninn í Brenn-heita sturtu.

Selfyssingar voru nokkra stund að ná áttum eftir þetta og Stjörnumenn sóttu stíft að markinu. Þeir fengu tvö góð færi áður en Selfyssingar komust óvænt yfir á 23. mínútu. Eftir snarpa sókn snaraði besti maður Selfyssinga í leiknum, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, boltanum inn á vítateiginn þar sem Viðar Örn Kjartansson var mættur og rak endahnútinn á sóknina með góðu marki.

Mark Selfoss var eins og blaut tuska framan í Stjörnumenn sem voru nokkra stund að ná áttum aftur. Það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks að Stjarnan sýndi lit, svo um munaði, því að þeir skoruðu tvö mörk á síðustu fimm mínútum hálfleiksins.

Í fyrra skiptið var Alexander Scholz að verki með hörkuskoti fyrir utan vítateig og á lokamínútu hálfleiksins skoraði Ellert Hreinsson með skalla yfir Ismet Duracak í marki Selfoss.

Bæði lið fengu ágæt færi á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiks sem annars voru tíðindalitlar. Á 70. mínútu áttu Selfyssingar að fá vítaspyrnu þegar varnarmaður Stjörnunnar fékk fyrirgjöf Sigurðar Eybergs í höndina innan vítateigs. Fjórum mínútum síðar áttu Stjörnumenn frábært langskot að marki en Duracak varði fimlega.

Þrátt fyrir að vera manni færri voru Selfyssingar alltaf hættulegir og Jón Daði Böðvarsson fór þar fremstur. Hann komst einn innfyrir á 80. mínútu en hikaði og færið rann út í sandinn. Mínútu síðar ráku Stjörnumenn síðasta naglann í kistu Selfyssinga eftir snarpa sókn og draumasendingu innfyrir á Kenny Chopart sem skoraði af öryggi framhjá Duracak.

Eftir þriðja markið fjaraði leikurinn út en Selfyssingar fengu þó gott færi í uppbótartíma þegar Abdoulay Ndiaye slapp einn innfyrir en skaut í hliðarnetið.

Eftir tapið eru Selfyssingar komnir í fallsæti þar sem Fram vann ÍA í kvöld. Fram og Selfoss höfðu því sætaskipti og Selfoss er nú í 11. sæti með 8 stig.

Fyrri greinVonbrigði að lausar íbúðir séu ekki leigðar
Næsta greinÚr kartöflum í keramik