Tíu Skagamenn lögðu Selfoss

Selfyssingar töpuðu 2-1 gegn ÍA í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Skagamenn léku manni færri stærstan hluta leiksins og skoruðu sigurmarkið á 89. mínútu.

Aðstæður voru ekki þær bestu á Akranesi, hífandi rok og léku Selfyssingar undan vindi í fyrri hálfleik. Til tíðinda dró á 13. mínútu þegar Viðar Örn Kjartansson var við það að sleppa í gegn en aftasti varnarmaður ÍA, Heimir Einarsson fyrirliði, braut á Viðari og uppskar rautt spjald fyrir verknaðinn.

Manni færri komust Skagamenn yfir en Gary Martin skoraði á 20. mínútu eftir vel útfærða sókn. Selfyssingar sóttu í sig veðrið og á 36. mínútu rak Viðar tána í boltann í markteignum eftir langt innkast og klafs fyrir framan Skagamarkið.

Staðan var 1-1 í leikhléinu en Skagamenn sóttu meira í seinni hálfleik, þrátt fyrir að vera manni færri, en Kári gekk reyndar í lið með þeim. Selfyssingum gekk ekkert að sækja gegn vindinum og voru sóknir Skagamanna mun hættulegri og áttu þeir nokkur ágæt færi þegar leið á leikinn. Sigurmarkið kom svo á 89. mínútu úr aukaspyrnu við vítateigslínuna hjá Selfyssingum. Mark Doninger þrumaði knettinum upp í samskeytin og Jóhann Ólafur fékk ekki við neitt ráðið í markinu. Markið hefði reyndar ekki átt að standa þar sem boltinn var á hreyfingu þegar Doninger tók spyrnuna.

Strax í kjölfarið lét Jón Daði Böðvarsson skapið hlaupa með sig í gönur þegar hann sparkaði knettinum í leikmann ÍA og uppskar sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Skagamenn geta fljótlega farið að fagna sæti í Pepsi-deildinni en þeir hafa nú 40 stig á toppnum og tólf stiga forskot á Selfoss sem er í 2. sæti með 28 stig. Þar á eftir koma Haukar með 21 stig og eiga þeir leik til góða á Selfoss.

Fyrri greinStefnan sett til Rómar
Næsta greinStærsta bókagjöf í sögu þjóðarinnar