Tíu Sunnlendingar eru í unglingalandsliðshópi Frjálsíþróttasambands Íslands sem kynntur var á dögunum. Til að komast í unglingalandsliðshópinn þarf að ná lágmörkum á ákveðnum tímabili og er íþróttafólk tekið inn í hópinn jafn óðum yfir tímabilið.
Sunnlensku piltarnir í hópnum eru Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, í 100 og 200 m hlaupi, þrístökki, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og tugþraut. Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, í 110 og 400 m grindahlaupi og kúluvarpi. Vésteinn Loftsson, Umf. Selfoss, í kringlukasti, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss í 800 m hlaupi, Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, í 200 m hlaupi og Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss í spjótkasti.
Stúlkurnar sem koma af Suðurlandi eru Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, í 300 m hlaupi, hástökki, langstökki og þrístökki, Helga Fjóla Erlendsdóttir, Garpi, í 200 m hlaupi, 80 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki og sleggjukasti, Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, í kúluvarpi, spjótkasti, kringlukasti og sleggjukasti og Arndís Eva Vigfúsdóttir, Umf. Selfoss, í kúluvarpi og kringlukasti.
Unglingalandsliðið hittist reglulega yfir tímabilið og fær allskyns fyrirlestra og fræðslu og svo eru æfingabúðir einu sinni á ári.