Tokic bestur og Þorsteinn Aron efnilegastur

Úr leik Selfoss og Hauka í sumar. Tokic og Þorsteinn Aron á tánum í vítateignum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í 2. deild karla í knattspyrnu völdu Hrvoje Tokic besta leikmann deildarinnar og Þorstein Aron Antonsson þann efnilegasta.

Þeir eru báðir í liði ársins í 2. deildinni á fotbolti.net ásamt Kenan Turudija. Þór Llorens Þórðarson og Danijel Majkic eru á varamannabekknum í liði ársins.

Sóknarmaðurinn Hrvoje Tokic átti mjög gott sumar með Selfyssingum sem enduðu í 2. sæti deildarinnar. Tokic skoraði fimmtán mörk í fimmtán leikjum í sumar og varð markahæstur í deildinni. Tokic skoraði tæplega 42% marka Selfoss í deildinni, 15 af 36.

Hinn 16 ára gamli Þorsteinn Aron lék sinn fyrsta deildarleik með Selfossi í 1. umferð deildarkeppninnar í sumar. Hann var fastamaður í liði Selfoss í sumar, lék fjórtán leiki og skoraði tvö mörk áður en hann gekk í raðir Fulham nú í haust. Þorsteinn er miðvörður sem gæti átt eftir að ná mjög langt í framtíðinni. Hann vann kjörið með talsverðum yfirburðum.

Lið ársins í 2. deild karla á fotbolti.net

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að fjórða grunnskólanum í Árborg
Næsta greinStarfsmenn fá úttektarkort í stað árshátíðar