Tokic með þrennu í stórsigri Selfoss

Selfyssingar sendu Hauka í fallsæti og lyftu sér sjálfir upp í öruggt sæti með 5-0 sigri gegn Hafnfirðingum á Selfossi í dag.

„Ég er mjög sáttur, að halda hreinu líka. Liðið spilaði vel saman og þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Dean Martin í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn. „Við erum búnir að vinna í varnarleiknum frá því í síðasta leik gegn Ólafsvík, að vinna frá fremsta manni alla leið niður í vörn. Það skilaði sér í dag.“

Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir á 33. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik eftir hörkuleik. Tokic var svo aftur á ferðinni á 49. mínútu og má segja að annað mark Selfoss hafi slegið Hauka virkilega út af laginu. Selfyssingar voru mun betri það sem eftir lifði leiks og bættu við þremur mörkum.

Haukar skoruðu sjálfsmark á 54. mínútu eftir langt innkast frá Stefáni Ragnari Guðlaugssyni, Guðmundur Axel Hilmarsson bætti við glæsilegu skallamarki á 74. mínútu og Tokic innsiglaði svo þrennuna þegar sjö mínútur voru eftir.

Selfoss hefur nú 15 stig í 10. sæti deildarinnar en Haukar fóru niður í 11. sætið og eru með 14 stig. Botnbaráttan er geysihörð og má segja að pakkinn frá 6. sæti og niður sér mjög þéttur.

Fyrri greinÓttast um flugvél sem lenti á Selfossi
Næsta greinÆgir vann mikilvægan sigur – KFR slátraði Stál-úlfi