Tokic semur við Árborg

Hrvoje Tokic eftir undirskriftina með Ingimar Helga Finnssyni, aðstoðarþjálfara Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Markahrókurinn Hrvoje Tokic hefur samið við Knattspyrnufélag Árborgar og mun spila með liðinu í 4. deildinni það sem eftir er sumars.

Tokic hóf tímabilið með Ægi og lék átta leiki með liðinu í Lengjudeildinni í sumar.

Það þarf ekki að taka það fram hversu mikill liðsstyrkur þetta er fyrir Árborg, sem er í toppbaráttu 4. deildarinnar. Tokic, sem er 33 ára gamall, hefur spilað 166 leiki á Íslandi og skorað í þeim 126 mörk, þar af 42 leiki í efstu deild en hann hefur áður leikið með Víkingi Ó, Breiðabliki og Selfossi.

„Að fá Tokic til okkar á þessum tímapunkti er frábært fyrir alla, bæði liðið og okkur þjálfarana. Hann æfði með okkur í einn og hálfan mánuð í vetur og þar sýndi hann hvað hann er ótrúlega flottur leikmaður og hann var duglegur að miðla reynslu og gæðum til liðsfélaganna,“ sagði Ingimar Helgi Finnsson, aðstoðarþjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta er líka vitnisburður um það hvað Árborg er komin langt og stjórnin er að gera frábæra hluti. Tokic veit yfir hvaða gæðum liðið býr yfir. Við spilum skemmtilegan sóknarbolta og það spilaði inn í af hverju hann valdi okkur og treysti okkur fyrir næsta skrefi á sínum ferli,“ sagði Ingimar.

Fyrri greinBryndís með neglu!
Næsta greinSögulegur ósigur Selfyssinga – Botnliðið í brekku