Bakvörðurinn Tómas Heiðar Tómasson mun leika með Þór Þorlákshöfn á næstu leiktíð í Dominos-deildinni í körfuknattleik.
Tómas staðfesti þetta við mbl.is.
Tómas er uppalinn í Fjölni og var lykilmaður hjá liðinu í vetur og einnig tímabilið 2010-2011 en í fyrra spilaði hann í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Tómas er 21 árs og skoraði tæplega 13 stig að meðaltali fyrir Fjölni í deildinni í vetur.
Mörg lið voru á eftir Tómasi en Fjölnir féll niður í 1. deildina í vor.
Í gær var greint frá því að Guðmundur Jónsson færi frá Þór til Keflavíkur. Hann hefur verið einn af bestu mönnum Þórs síðustu tvö tímabil en Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórsara var greinilega ekki lengi að finna öflugan mann í hans stað.