Tómas Valur íþróttamaður Ölfuss 2024

Verðlaunahafar og fulltrúar þeirra. Björk Tómasdóttir, móðir Tómasar Vals, og Þórdís Ragna, systir hans, tóku við verðlaununum fyrir hans hönd. Ljósmynd/Ölfus

Körfuknattleiksmaðurinn Tómas Valur Þrastarson var í gær útnefndur íþróttamaður Sveitarfélagsins Ölfuss árið 2024.

Tómas Valur lék stórt hlutverk í meistaraflokksliði Þórs sem var í toppbaráttu tímabilið 2023-2024 og á lokahófi KKÍ í fyrra var hann valinn í úrvalslið Subwaydeildar auk þess að vera valinn besti ungi leikmaður Íslandsmótsins. Tómas var einn af betri leikmönnum í U-20 ára landsliðs Íslands sem lék í A – deild Evrópumótsins í körfuknattleik og þá hlotnaðist Tómasi sá heiður að vera valinn í landsliðshóp A-landsliðs karla í fyrsta sinn á árinu. Tómas hélt svo á vit ævintýranna síðastliðið haust þegar hann fékk skólastyrk til þess að spila með Washington State University í Bandaríkjunum.

Tómas Valur Þrastarson.

Auk Tómasar Vals voru í kjöri þau Bjarki Rúnar Jónínuson knattspyrna, Bríet Eva Guðmundsdóttir fimleikar, Haraldur Ásgeir B. Haraldsson rafíþróttir, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir körfuknattleikur. Margrét Björg Jónsdóttir keila, Unnur Rós Ármannsdóttir hestaíþróttir, Valgerður Einarsdóttir Hjaltested bogfimi og Védís Huld Sigurðardóttir hestaíþróttir.

Á uppskeruhátíð Ölfuss voru einnig veittar viðurkenningar til þeirra liða og einstaklinga sem urðu deildar-, Íslands- eða bikarmeistara og sömuleiðis til þeirra íþróttamanna sem kepptu með landsliðum Íslands á árinu.

Fyrri grein„Mikilvægt að Bjartur finnist sem fyrst“
Næsta greinErfið baktería orsök veikindanna