Knattspyrnudeild Selfoss hefur gert eins árs samning við pólska varnarmanninn Tomasz Luba og mun hann leika með liði félagsins í 2. deildinni í sumar.
Luba, sem er 32 ára gamall, lék síðast með Víkingi Ó í Pepsi-deildinni sumarið 2017 áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun. Hann hefur leikið lengi á Íslandi, fyrst með Reyni Sandgerði en síðan í átta ár með Víkingi Ó, þar af þrjú tímabil í Pepsi-deildinni. Það er mikill fengur fyrir ungt lið Selfoss að fá þennan reynslumikla leikmann í hjarta varnarinnar.
„Ég er mjög spenntur fyrir því að komast í fótbolta aftur. Ég hætti í fótbolta til þess að setja fókusinn á þjálfunina og er að mennta mig í því en nú hlakka ég til að komast út á völlinn aftur. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig sem leikmaður og sem þjálfari og gott, bæði fyrir mig og félagið. Ég get hjálpað liðinu innan vallar og félagið getur hjálpað mér að verða betri þjálfari. Mig langaði að koma á Selfoss því hér er frábær þjálfari og flottur hópur og það hafði líka áhrif að tveir vinir mínir spila með liðinu, þeir Kenan Turudija og Hrvoje Tokic. Hér er mjög gott ungt lið og aðstaðan er góð en síðasta ár var ekki gott hjá liðinu. Ég vildi koma hingað og hjálpa liðinu strax upp aftur,“ segir Tomasz Luba.