Tomasz Luba hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Knattspyrnufélagi Árborgar.
Þetta er fyrsta starf hans sem meistaraflokksþjálfari en Tomasz hefur þjálfað yngri flokka á Selfossi undanfarin ár, auk þess sem hann hefur verið í þjálfarateyminu hjá Knattspyrnuakademíu Íslands í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Tomasz, sem er 34 ára, lagði skóna á hilluna árið 2019 eftir þrálát meiðsli. Hann á að baki langan feril sem leikmaður, lék lengst af með Víkingi Ólafsvík hér á landi en einnig með Reyni Sandgerði og Selfossi. Hann hóf sinn feril í Póllandi þar sem hann lék með LKS Lomza og Wisla Plock.
Í tilkynningu frá stjórn Knattspyrnufélags Árborgar er hann boðinn velkominn til starfa og tekið fram að stjórnin bindur miklar vonir við ráðningu Tomaszar.