Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í úrvalsdeild karla í körfubolta í háspennuleik á útivelli í kvöld, 107-110. Nikolas Tomsick skoraði fjórar þriggja stiga körfur á lokamínútunum og tryggði Þór sigurinn.
Leikurinn var jafn allan tímann en Þórsarar höfðu frumkvæðið lengst af fyrri hálfleik og leiddu 48-57 í leikhléi. Blikar bitu frá sér í 3. leikhluta og síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir var staðan 101-98 en þá skoraði Tomsick þrjár þriggja stiga körfur í röð og kom Þór í 101-107. Blikar svöruðu með tveimur þristum í röð frá Christian Covile en Tomsick var ekki hættur og negldi fjórða þristinum í grillið á Blikum um leið og lokaflautan gall, 107-110.
Tomsick skoraði 39 stig fyrir Þór, þar af 20 í 4. leikhluta, en maður leiksins var King Rochford, sem átti frábæran leik fyrir Þór, skoraði 30 stig, tók 15 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.
Þórsarar eru nú í 9. sæti deildarinnar með 4 stig en Blikar í 11. sæti með 2 stig.
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 39/5 stoðsendingar, Kinu Rochford 30/15 fráköst/8 stoðsendingar, Jaka Brodnik 15/6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 13/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 11/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 2.