Nikolas Tomsick var hetja Þórs í kvöld þegar liðið lagði ÍR 95-96 í háspennuleik á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta.
Leikurinn var hnífjafn nánast allan tímann, Þór leiddi 23-25 eftir 1. leikhluta en ÍR í leikhléi, 50-44. ÍR náði 11 stiga forskoti í 3. leikhluta en Þórsarar voru fljótir að svara og staðan var 74-73 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
ÍR náði átta stiga forskoti í 3. leikhluta en Þórsarar voru grimmir í lokin. Tomsick jafnaði úr þriggja stiga skoti, 93-93, þegar rúm mínúta var eftir, ÍR svaraði með tveggja stiga körfu en í síðustu sókn Þórsara fékk Tomsick aftur boltann og náði hann að tryggja Þór sigurinn með annarri þriggja stiga körfu úr erfiðu færi.
Þór hefur nú 18 stig í 6. sæti deildarinnar en ÍR í 8. sæti með 14 stig.
Tomsick skoraði 24 stig fyrir Þór í kvöld, tók 9 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Halldór Garðar Hermannsson skoraði 23 stig, Jaka Brodnik 22, Emil Einarsson 13 og Kinu Rochford skoraði 12 stig og tók 14 fráköst.