Árborg tapaði 2-0 þegar liðið heimsótti topplið Hattar í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Árborg situr áfram á botni deildarinnar.
Bæði lið fengu hálffæri á upphafsmínútunum en Árborgarar áttu fyrsta hættulega færið á 21. mínútu þegar Andy Pew átti ágætan skalla að marki sem markvörður Hattar varði vel.
Skömmu síðar varði markvörður Hattar hörkuskot frá Erlingi Ingasyni og í næstu sókn heimamanna komust þeir yfir eftir að Árborgarar seldu sig illa í vörninni.
Þetta var eina alvöru færi Hattar í fyrri hálfleik og Guðmundur Böðvarsson fékk færi á að jafna en skallaði framhjá á 38. mínútu.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Hattarmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og voru sterkari fyrsta hálftímann. Þeir fengu þó aðeins eitt gott færi strax í upphafi seinni hálfleiks sem Steinar Stefánsson varði.
Árborg sótti í sig veðrið síðasta korterið og fékk góð tvö færi. Andy Pew átti annan hættulegan skalla, framhjá í þetta skiptið og skömmu síðar slapp Guðmundur Sigfússon innfyrir en skaut framhjá í dauðafæri.
Höttur komst í 2-0 á 82. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að Árborgurum mistókst að hreinsa frá aukaspyrnu. Tveimur mínútum síðar hefðu heimamenn getað bætt við þriðja markinu en Steinar Stefánsson varði vel skot af stuttu færi.