FSu og Gnúpverjar töpuðu í kvöld leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta en andstæðingarnir voru tvö efstu liðin í deildinni, Skallagrímur og Breiðablik.
FSu elti allan tímann þegar liðið lék gegn Skallagrími í Borgarnesi. Munurinn var þó ekki mikill. Staðan var 48-37 í leikhléi og heimamenn náðu að klára leikinn nokkuð örugglega, 95-88.
Ari Gylfason skoraði 23 stig fyrir FSu og Hlynur Hreinsson 20.
Í Kópavogi tóku Blikar á móti Gnúpverjum. Jafnræði var með liðunum framan af leik, en í 2. leikhluta náðu Blikar að búa til forskot og munurinn var átta stig í leikhléi, 44-36. Gnúpverjar höfðu í fullu tré við Blika í 3. leikhluta en gáfu eftir í þeim fjórða þar sem Breiðablik skoraði 31 stig og tryggði sér 99-78 sigur.
Everage Richardson var stigahæstur Gnúpverja með 26 stig og Gabríel Möller skoraði 18. Ölfusingurinn Erlendur Ágúst Stefánsson var stigahæstur Blika með 21 stig.
Staða liðanna í deildinni er óbreytt. Gnúpverjar hafa 10 stig í 7. sæti og FSu 4 stig í 8. sætinu.
Tölfræði FSu: Ari Gylfason 23, Hlynur Hreinsson 20/7 stoðsendingar, Antowine Lamb 14/9 fráköst, Florijan Jovanov 11/10 fráköst, Haukur Hreinsson 8/7 fráköst, Bjarni Bjarnason 8, Maciek Klimaszewski 4.
Tölfræði Gnúpverja: Everage Lee Richardson 26/10 fráköst/5 stolnir, Gabríel Sindri Möller 18, Atli Örn Gunnarsson 14/7 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 8/5 fráköst, Tómas Steindórsson 4, Garðar Pálmi Bjarnason 3, Ægir Hreinn Bjarnason 2, Hamid Dicko 2, Hákon Már Bjarnason 1/5 fráköst/6 stoðsendingar.