Toppliðið ekki í vandræðum á Selfossi

Perla Ruth Albertsdóttir var í strangri gæslu Valskvenna í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði stórt gegn toppliði Vals í dag þegar keppni á Íslandsmóti kvenna í handbolta hófst aftur eftir EM- og jólafrí. Lokatölur í Set-höllinni Iðu urðu 20-34.

Valskonur lentu í rútuvandræðum á leiðinni á Selfoss og leiknum seinkaði um tíu mínútur en þar með var vandræðum Valskvenna lokið í dag. Þær skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins og leiddu með 4-5 mörkum allan fyrri hálfleikinn. Munurinn varð mestur sjö mörk, 7-14, en staðan var 12-18 í hálfleik.

Það varð ljóst snemma í seinni hálfleik að þetta yrði ekki spennuleikur. Valur náði fljótlega 12 marka forskoti, 13-25, og þar með var björninn unninn hjá gestunum.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfosskvenna með 6/2 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 5, Arna Kristín Einarsdóttir 3, Adela Jóhannsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hvor. Ágústa Jóhannsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu.

Eftir tíu umferðir eru Selfyssingar í 4. sæti deildarinnar með 8 stig en Valskonur öruggar á toppnum með 20 stig.

Fyrri greinHalldór Bjarki ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Selfoss
Næsta greinHamar/Þór byrjar árið af krafti