Botnlið Selfoss tók á móti toppliði FH í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld í Set-höllinni. Það tók FH dágóða stund að hrista Selfossliðið af sér en gestirnir sigruðu að lokum 21-26.
Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og varnarleikurinn í hávegum hafður auk þess sem markverðir beggja liða voru í miklu stuði. Staðan í hálfleik var 7-10.
FH keyrði upp hraðann í upphafi seinni hálfleiks og Selfossvörnin stóðst þeim ekki snúninginn. Munurinn var fljótlega kominn upp í 7 mörk en þá tóku heimamenn aftur við sér. Þeir minnkuðu muninn í þrjú mörk á lokakaflanum en tíminn var of naumur og FH skoraði síðustu tvö mörk leiksins.
Gunnar Kári Bragason var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 4/3, Richard Sæþór Sigurðsson 3/2, Ásgeir Snær Vignisson og Hans Jörgen Ólafsson 2 og þeir Sæþór Atlason, Álvaro Mallols, Sveinn Andri Sveinsson, Einar Sverrisson og Hannes Höskuldsson skoruðu allir 1 mark. Vilius Rasimas varði 14 skot í leiknum, þar af 12 í fyrri hálfleik og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 7 skot á lokakafla leiksins.
Selfoss er áfram á botni deildarinnar með 6 stig og næsta verkefni liðsins er 4 stiga leikur gegn Víkingi sem eru sömuleiðis með 6 stig í 11. sætinu.