Botnlið Ægis tók á móti toppliði Aftureldingar í Lengjudeild karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í kvöld. Gestirnir reyndust sterkari og sigruðu 1-4.
Ægismenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og Dimitrije Cokic fékk besta færi fyrri hálfleiks á 15. mínútu en skaut í stöngina. Ægismenn héldu áfram að vera líklegir fram á við en voru dæmdir rangstæðir í tíma og ótíma og það hélt reyndar áfram allan leikinn.
Staðan var 0-0 í hálfleik en Afturelding var mun sterkari í seinni hálfleik og nánast lokaði leiknum þegar þeir skoruðu tvívegis með mínútu millibili þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar. Ægir átti ágæta spretti fram á við og Ivo Braz var þeirra sprækastur. Hann kom boltanum í netið á 70. mínútu en var ranglega dæmdur rangstæður og strax í næstu sókn svöruðu gestirnir fyrir sig með þriðja markinu eftir þunga sókn.
Braz komst loks á blað á 83. mínútu þegar hann slapp innfyrir og skoraði en það voru Aftureldingarmenn sem áttu síðasta orðið, þeir skoruðu fimmta mark leiksins á 89. mínútu.
Ægismenn eru áfram á botni deildarinnar með 4 stig en Afturelding er með ágætt forskot á toppnum með 26 stig.