Töpuðu úti gegn toppliðinu

Katla María Magnúsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti topplið Vals í úrvalsdeild kvenna í handbolta að Hlíðarenda í kvöld. Valskonur sýndu mátt sinn og megin og sigruðu 31-22.

Selfoss hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum en þegar tíu mínútur voru liðnar komust Valskonur yfir, 5-4, og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Munurinn varð mestur átta mörk í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 16-8.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og náðu að minnka muninn í fjögur mörk en þá tók Valur við sér aftur og náði mest tíu marka forskoti.

Katla María Magnúsdóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Sara Dröfn Ríkharðsdóttir skoruðu allar 4 mörk fyrir Selfoss. Kristín Arna Einarsdóttir skoraði 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2/1 og Hulda Dís Þrastardóttir 1.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu.

Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar með 13 stig og Valskonur öruggar á toppnum með 32 stig.

Fyrri greinHraunheimar hafa leik og læsi í forgrunni
Næsta greinSet styrkir sig með þremur nýjum sérfræðingum