Mörkunum rigndi í leikjum kvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu. Hamar vann góðan heimasigur á Skallagrími en Árborg missti tveggja marka forskot gegn Kríu niður í jafntefli.
Það var frábær stemning að vanda á Grýluvelli og hún batnaði enn frekar á 18. mínútu þegar Torfi Már Markússon kom Hamri yfir gegn Skallagrími. Guido Rancez tvöfaldaði forskot Hamars tíu mínútum síðar en í uppbótartíma fyrri hálfleiks minnkuðu gestirnir muninn í 2-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Hvergerðingar mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og Torfi var aftur á ferðinni á 51. mínútu, 3-1. Á 64. mínútu ætlaði svo allt um koll að keyra þegar hinn 15 ára gamli Brynjar Óðinn Atlason slapp innfyrir og skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark fyrir Hamar. Rétt fyrir leikslok skiptu Hvergerðingar ennþá yngri leikmanni inn á völlinn, Markúsi Andra Daníelssyni Martin, sem er aðeins 14 ára gamall og hann hressti enn frekar upp á sóknarleik liðsins. Hamar fékk hornspyrnu á 91. mínútu og úr henni stangaði Torfi Már boltann í netið, kórónaði þrennuna og tryggði Hamri 5-1 sigur.
Kría jafnaði í uppbótartímanum
Árborg heimsótti Kríu á Seltjarnarnesið í hörkuleik. Árborgarar urðu fyrri til að skora en Sigurður Óli Guðjónsson kom þeim yfir á 12. mínútu. Heimamenn jöfnuðu á 31. mínútu en Kristinn Sölvi Sigurgeirsson átti lokaorðið í fyrri hálfleik, hann kom Árborg í 1-2 á 42. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Árborg komst svo í vænlega stöðu á 50. mínútu þegar Aron Darri Auðunsson skoraði þriðja mark liðsins. Kría minnkaði muninn á 83. mínútu og sótti hart að marki Árborgar á lokakaflanum. Á fjórðu mínútu uppbótartímans gaf Árborg eftir, Kría jafnaði og lokatölur leiksins urðu 3-3.
Hamar er í toppsæti 4. deildarinnar sem stendur, með 10 stig en Ýmir er í 2. sæti með 9 stig og á leik til góða. Árborg og Kría eru í 3.-4. sæti með 7 stig.