Selfosskonur eru komnar í toppsæti B-riðils 1. deildar kvenna eftir torsóttan 5-1 sigur á Fjarðabyggð/Leikni á Selfossvelli í dag.
Selfossliðið var arfaslakt í fyrri hálfleik enda voru það gestirnir sem komust yfir á 20. mínútu með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Selfossliðið var meira með boltann og en þau fáu færi sem liðið náði að skapa höfnuðu í höndunum á frábærum markverði gestaliðsins.
Helena Ólafsdóttir, þjálfari, hefur líklega tekið hárblásararæðu á Selfossliðið í hálfleik því þær litu mun betur út í síðari hálfleik og náðu meira floti í sóknarleikinn.
Það var þó ekki fyrr en á 56. mínútu að Dagný Hróbjartsdóttir náði að brjóta ísinn með góðu skallamarki eftir hornspyrnu. Skömmu síðar átti Anna María Friðgeirsdóttir stangarskot en næsta mark Selfoss lá í loftinu.
Eva Lind Elíasdóttir kom Selfoss síðan yfir á 70. mínútu þegar hún þrumaði að marki eftir klafs í teignum uppúr hornspyrnu. Eva Lind, sem er 15 ára gömul, var nýlega komin inná sem varamaður og lífgaði mikið upp á sóknarleik Selfoss.
Annar varamaður, Guðbjörg Una Hallgrímsdóttir, kom sterk inn á miðjuna og á 81. mínútu átti hún frábæra stungusendingu inn á Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur sem lék á markvörð Fjarðarbyggðar og renndi knettinum í netið. Mínútu síðar kom fjórða markið þegar Katrín Ýr sendi innfyrir á Evu Lind sem sólaði markvörð gestanna af yfirvegun og skoraði í tómt markið.
Selfoss hafði þar með gert út um leikinn á tveimur mínútum en lokahnútinn batt Katrín Ýr þegar hún skoraði af vítapunktinum á 90. mínútu eftir að varnarmaður Fjarðarbyggðar/Leiknis hafði fengið boltann í höndina innan teigs.
Selfoss er nú á toppi A-riðils með 21 stig, fullt hús, þegar sjö umferðir hafa verið leiknar. Framundan er keppnisferð austur á land þar sem liðið mætir Fjarðabyggð/Leikni á Eskifirði á föstudag og Hetti á Egilsstöðum á sunnudag.