Karlalið Selfoss í knattspyrnu mætir KFA í úrslitaleik neðrideildabikarsins, Fótbolta.net bikarnum, á Laugardalsvelli á föstudagskvöld.
Það verður mikið húllumhæ á Selfossi fyrir leik og vonast leikmenn Selfoss til þess að stuðningsmenn liðsins fjölmenni á þjóðarleikvanginn en boðið verður upp á fríar rútuferðir með grænum rútum frá GT á leikinn.
„Þetta leggst rosalega vel í okkur og við erum allir mjög spenntir fyrir því að spila á þjóðarleikvanginum,“ segir Aron Fannar Birgisson, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. „Það er alvöru umgjörð í kringum þennan leik, bæði á Selfossi fyrir leik og síðan á Laugardalsvellinum. Til þess að fullkomna umgjörð leiksins þurfa stuðningsmenn Selfoss að fylla stúkuna og við treystum á Selfyssinga að fjölmenna,“ sagði Aron Fannar ennfremur.
Stemning í miðbænum fyrir leik
Dagskráin hefst í miðbæ Selfoss klukkan 16:00 þar sem boðið verður upp á andlitsmálun, candyfloss frá Groovís og happy hour á Röstí, Takkó, Samúelsson og Romano. Þá mun Magnús Kjartan mæta með gítarinn og taka lagið.
Rúturnar leggja svo af stað til Reykjavíkur frá miðbænum klukkan 17:30 og er takmarkað sætapláss í boði. Fyrstur kemur fyrstur fær og börn 13 ára og yngri skulu vera í fylgd fullorðinna í rútum.