Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Hrunamenn léku heima gegn KR en Selfoss heimsótti Þór á Akureyri.
Á Flúðum voru KR-ingar fljótlega komnir með gott forskot, sem þeir héldu allan leikinn. Staðan í hálfleik var 40-52 en í seinni hálfleiknum juku KR-ingar forskotið jafnt og þétt og sigruðu að lokum 81-104.
Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 27 stig, Eyþór Orri Árnason skoraði 16 stig, tók 6 fráköst og sendi 6 stoðsendingar og Hringur Karlsson skoraði 15 stig. Besti maður vallarins var hins vegar Aleksi Liukko, sem skoraði 10 stig, tók 23 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.
Leikur Þórs og Selfoss á Akureyri var mun jafnari. Þórsarar höfðu samt undirtökin stærstan hluta leiksins og leiddu í leikhléi, 51-42. Munurinn hélst svipaður inn í seinni hálfleikinn en í upphafi 4. leikhluta náðu Selfyssingar að minnka muninn í fjögur stig, 72-68. Þá settu Þórsarar aftur í gírinn og unnu nokkuð örugglega, 93-80.
Michael Asante var með rosalegar tölur fyrir Selfoss og var besti maður vallarins með 34 stig og 25 fráköst auk 7 stoðsendinga. Ísak Júlíus Perdue skoraði 16 stig og Arnór Eyþórsson 12.