Ungmennalið Selfoss í handbolta gerði góða ferð í Grafarvoginn í kvöld þar sem þeir sigruðu Vængi Júpíters 31-33 í Grill66 deild karla í handbolta.
Gengi liðanna hefur verið ólíkt í vetur en leikurinn var þó jafn og spennandi. Vængirnir leiddu 16-14 í hálfleik en Selfyssingarnir ungu náðu að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik.
Tryggvi Sigurberg Traustason fór mikinn í liði Selfoss-U og skoraði 11 mörk, Sölvi Svavarsson skoraði 8, Guðjón Baldur Ómarsson 6, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Árni Ísleifsson 2 og þeir Gunnar Kári Bragason, Vilhelm Freyr Steindórsson og Hans Jörgen Ólafsson skoruðu allir 1 mark.
Selfyssingar eru nú í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en Vængir Júpíters eru í 10. sæti með 2 stig.