Golfklúbburinn Tuddi fór með sigur af hólmi í 5. deild karla í Sveitakeppni GSÍ sem fram fór á Bárarvelli í Grundarfirði um síðustu helgi.
Leikinn var höggleikur í mótinu þar sem fjögur bestu skor hjá hverri sveit giltu á hverjum keppnisdegi. Sex sveitir tóku þátt í mótinu og léku kylfingar Tudda best eða á samtals 648 höggum.
Tuddi sendi vaska sveit tólf manna á mótið, staðráðnir í að gera góða hluti. Mikil keppnisgleði hefur einkennt keppni í 5.deild síðustu ár og var mikil stemming meðal keppenda í mótinu ekki síst fyrir tilstilli Tuddana. Því nú sem endra nær þá vöktu Tuddar mikla athygli fyrir skemmtilega, líflega og mjög svo fágaða framkomu, sem þykir til mikillar eftirbreytni.
Tuddi spilar því í 4. deild að ári ásamt þremur öðrum sunnlenskum klúbbum, Selfoss, Geysi og Hveragerði.