Knattspyrnudeild Selfoss hefur gert tveggja ára samning við Bosníumanninn Kenan Turudija. Þá hefur Hafþór Þrastarson framlengt samning sinn við Selfoss um eitt ár.
Turudija er reynslumikill leikmaður, 27 ára gamall, og kemur til Selfoss frá Víkingi Ólafsvík en þar áður lék hann með Sindra á Hornafirði. Hann hefur leikið hátt í sextíu leiki með Víkingi Ó. í Pepsi-deildinni og 1. deildinni.
„Þetta er öflugur leikmaður sem getur leyst margar stöður á miðsvæðinu. Sterkur miðjumaður sem skorar mörk og hefur sannað sig í Pepsi-deildinni. Hann er klárlega mikill fengur fyrir okkur,“ segir Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss.
Þá greindu Selfyssingar frá því í morgun í annarri fréttatilkynningu að varnarmaðurinn sterki, Hafþór Þrastarson, verði áfram hjá félaginu.
Hafþór er 27 ára gamall og hefur leikið 32 leiki fyrir Selfoss. Hann kom fyrst til félagsins sumarið 2012 að láni frá FH og renndi svo aftur yfir Ölfusárbrú fyrir síðasta keppnistímabil og var lykilmaður í vörn liðsins.
„Hafþór er hraður og hundtryggur og við erum mjög ánægðir með að hann verði áfram í okkar röðum. Hann bætti sig mikið á síðasta tímabili og á enn mikið inni. Við reiknum með honum sterkum næsta sumar. Auk þess að vera sterkur varnarmaður þá er hann frábær liðsmaður sem gefur af sér bæði innan og utan vallar,“ segir Gunnar.