Tvær sunnlenskar áhafnir í Rally Reykjavík

Þrítugasta og fjórða alþjóðarallkeppnin á Íslandi, Rally Reykjavík, hefst á morgun fimmtudag. Tvær sunnlenskar áhafnir eru á meðal þátttakenda.

Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson er aðstoðarökumaður hjá bróður sínum Heimi Snæ á Jeep Cherokee og skipa þeir bræður PACTA Rallyteam. Báðir eru þeir reynslumiklir ökumenn og aðstoðarökumenn og hafa báðir hampað Íslandsmeistaratitlum. Halldór er að fara í sitt tíunda alþjóðarall og Heimir í sitt níunda. Bræðurnir hafa þó ekki keppt mikið saman og eru nú á leið í sitt annað rall saman á þessum bíl.

Fyrsta keppnin þeirra saman á bílnum var í alþjóðarallinu í fyrra en þeir féllu þá úr leik vegna vélarbilunar á öðrum degi. Þá voru þeir í fjórða sæti í keppninni. Í samtali við sunnlenska.is sagði Halldór að stefnan væri sett á sigur í jeppaflokki og að vera ofarlega í heildarkeppninni. Styrktaraðilar PACTA Rallyteam eru PACTA lögmenn, Autoparts, Bíljöfur og sunnlenska.is.

Selfyssingurinn Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson á Stóru-Borg hafa ekið saman í sumar á Subaru Impreza í flokki N4. Þór Líni kom eins og stormsveipur inn í rallheiminn í fyrra og lauk tímabilinu sem sigurvegari í sprettralli í október. Hann var verðlaunaður sem nýliði ársins í rallakstri á lokahófi akstursíþróttamanna síðasta haust.

Þór Líni og Sigurjón lentu í miklum hremmingum í gær því eftir keppnisskoðun í gærkvöldi hrundi vélin í Imprezunni og eru þeir nú í kapphlaupi við klukkuna að útbúa nýjan bíl til keppni. Styrktaraðilar liðsins eru Bílverk BÁ, Pústþjónusta BJB, Dynjandi, Wurth og sunnlenska.is.

Í ár er 21 bíll skráður til leiks í keppnina en alls aka þeir rúma 1.035 kílómetra, þar af 283 á lokuðum sérleiðum. Á fimmtudag verða meðal annars eknar sérleiðir á Reykjanesi, á föstudag á Hellisheiði og í nágrenni Heklu og á laugardag norðan Þingvalla.

Upplýsingar um vegalokanir vegna rallkeppninnar má nálgast hér en meðal annars verða lokanir á Landmannaleið og í nágrenni Heklu á föstudag og í Bolabás, á Tröllhálsi og Kaldadal á laugardagsmorgun.

Fyrri greinEinar missir af upphafi Íslandsmótsins
Næsta greinLækkaður hámarkshraði á Suðurlandsvegi