Vegna mikillar þátttöku íslenskra tippara og góðrar afkomu á árinu 2020 hefur stjórn Íslenskra getrauna ákveðið að úthluta 50,3 milljónum króna styrk til afreksdeilda í knattspyrnu, körfuknattleik og handknattleik.
Enn fremur hefur verið ákveðið að úthluta 10 milljónum króna í aukaframlag til þeirra 60 félaga sem hafa selt mest og fengið flest áheit vegna sölu á getraunaseðlum.
Sunnlensku íþróttafélögin njóta góðs af þessu. Ungmennafélag Selfoss fær stærsta styrkinn af þeim, tæplega 1,5 milljón króna og þar af er 1 milljón króna til kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu sem leikur í efstu deild.
Þór Þorlákshöfn fær 300 þúsund krónur þar sem félagið á lið í efstu deild karla í körfubolta. Laugdælir eru öflugustu tippararnir á Suðurlandi og fá 104 þúsund krónur, Umf. Skeiðamanna 91 þúsund og Knattspyrnufélag Rangæinga 37 þúsund krónur.
„Það er ánægjulegt að Íslenskar getraunir geti bætt við rúmlega 60 milljón króna framlagi til íþróttafélaganna á þessum erfiðu tímum vegna Covid ástandsins. Á þessu ári hefur viðskiptavinum Getrauna fjölgað umtalsvert og svo virðist sem margir tipparar hafi snúið frá erlendum ólöglegum veðmálasíðum og beint viðskiptum sínum til Getrauna og styðja þannig við bakið á íþróttafélögunum á Íslandi. Aukin sala á íþróttagetraunum er grundvöllur fyrir auknum framlögum Íslenskra getrauna til íþróttafélaganna“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson deildarstjóri hjá Íslenskum getraunum.