Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir skell á heimavelli gegn ÍA í gærkvöldi. Skagamenn sigruðu 1-4.
Selfyssingar byrjuðu leikinn skelfilega en eftir þrjár og hálfa mínútu var staðan orðin 0-2 fyrir ÍA. Varnarmistök Selfyssinga í fyrstu tveimur sóknum ÍA, en mark númer tvö kom úr vítaspyrnu eftir að Stefán Logi Magnússon, markvörður, hafði brotið á leikmanni ÍA.
Eftir tíu mínútna leik náðu Selfyssingar loksins áttum og stýrðu leiknum næstu mínúturnar. Gilles Ondo skoraði með skalla á 25. mínútu og Selfyssingar áttu ágætar sóknir í kjölfarið. Þeir fengu hins vegar þriðju blautu tuskuna framan í andlitið á 43. mínútu þegar ÍA skoraði gott mark uppúr engu og staðan var 1-3 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var tilþrifalítill og hvorugt lið fékk teljandi færi. Selfyssingar náðu að skapa usla eftir föst leikatriði en voru ekki nálægt því að skora. Skagamenn fengu hins vegar dauðafæri á 85. mínútu þar sem Stefán Logi varði vel en mínútu síðar kom fjórða markið þegar Selfossvörnin galopnaðist. Lokatölur 1-4.