Selfoss vann sinn fyrsta heimasigur í Olís-deild karla í handbolta í kvöld þegar liðið fékk ÍBV í heimsókn. Lokatölur urðu 38-32 í mögnuðum leik.
Bæði lið voru heldur brokkgeng á upphafsmínútum leiksins en Eyjamenn komust í 7-9 á þrettándu mínútu. Stefán Árnason þjálfari hvíslaði vel völdum lykilorðum í eyru leikmanna sinna og Selfoss tók leikinn yfir í kjölfarið. Staðan var 20-15 í hálfleik.
Forskot Selfyssinga varð mest níu mörk snemma í seinni hálfleik, en þá kviknaði heldur betur neisti hjá gestunum. Þeir skelltu í lás í vörninni og röðuðu inn mörkum þannig að staðan var orðin 32-32 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.
Þá var komið að Helga þætti Hlynssyni. Hann lokaði marki Selfoss á síðustu mínútunum þannig að heimamenn skoruðu síðustu sex mörkin í leiknum og tryggðu sér frábæran sigur, 38-32.
Sigurinn lyfti Selfyssingum upp í 2. sæti Olís-deildarinnar, með 10 stig eins og FH og Valur. Afturelding er með öruggt forskot á toppnum, með 16 stig.
Guðni Ingvarsson var frábær í kvöld, skoraði 13 mörk. Einar Sverrisson skoraði 8 mörk, Elvar Örn Jónsson 6, Andri Már Sveinsson 4, Teitur Einarsson 2/1, Alexander Egan og Hergeir Grímsson 2 og Guðjón Ágústsson 1.
Helgi Hlynsson átti frábært kvöld í marki Selfoss, varði 21 skot og Grétar Ari Guðjónsson varði eitt vítaskot.