Hamar/Þór vann frábæran endurkomusigur þegar liðið heimsótti Grindavík í Smárann í Kópavogi í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Hamar hafði frumkvæðið og leiddi 15-22 í upphafi 2. leikhluta. Þá kom afleitur kafli hjá þeim sunnlensku, Grindavík gerðu 25-8 áhlaup og hafði yfir í leikhléi, 40-30.
Útlitið var ekki bjart hjá Hamri/Þór lengi framan af seinni hálfleiknum. Grindavík náði mest sextán stiga forskoti, 61-45, en þá kom hörku álaup frá Hamri/Þór og þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum voru þær komnar yfir, 67-69. Lokakaflinn var æsispennandi og þrátt fyrir að tapa boltanum tvisvar á lokamínútunni sýndi Hamar/Þór stálvilja og landaði að lokum sætum sigri, 76-80.
Eins og oft áður var Abby Beeman með frábært framlag í kvöld, 37 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.
Þetta var annar sigur Hamars/Þórs í röð og liðið hefur nú 10 stig í 8. sæti deildarinnar en Grindvíkingar eru í neðsta sætinu með 6 stig.
Grindavík-Hamar/Þór 76-80 (15-16, 25-14, 23-23, 13-27)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 37/11 fráköst/8 stoðsendingar, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 15/4 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 9/7 fráköst, Hana Ivanusa 6/5 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 4, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 4, Anna Soffía Lárusdóttir 4/4 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 1.