Tveir í röð hjá Selfyssingum

Breki Baxter kom Selfyssingum á bragðið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran sigur á Fjölni á útivelli í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur í Grafarvoginum urðu 2-4.

Fjölnismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og þeir komust yfir á 23. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu. Fjölnir var meira með boltann og líklegri að bæta við marki en Selfyssingar voru ekkert að spá í því og á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu þeir aukaspyrnu úti á vinstri kanti sem endaði á fjær hjá Guðmundi Tyrfingssyni. Hann sendi boltann inn á Breka Baxter sem jafnaði metin með góðu skoti.

Staðan var 1-1 í hálfleik en strax á 4. mínútu seinni hálfleiks slógu Selfyssingar Fjölnismenn utanundir með blautri tusku. Selfoss fékk þá aukaspyrnu sem líkt og sú fyrri barst á Guðmund. Hann klippti boltann glæsilega inn á Adrian Sanchez sem skoraði úr opnu færi á fjærstöng.

Leikurinn róaðist nokuð eftir þetta en á 65. mínútu jafnaði Fjölnir 2-2 eftir klaufagang í vörn Selfoss. Bæði lið fengu dauðafæri í kjölfarið en á 81. mínútu áttu Selfyssingar snarpa sókn sem lauk með því að Guðmundur sendi sína þriðju stoðsendingu fyrir, nú á Ingva Rafn Óskarsson sem stangaði boltann í netið.

Fjölnir sótti stíft í lokin en það voru Selfyssingar sem áttu síðasta orðið. Þeir fengu vítaspyrnu í uppbótartímanum og úr henni skoraði Gary Martin og reyndist það allra síðasta spyrna leiksins.

Þetta var annar sigurleikur Selfyssinga í röð og hafa þeir nú lyft sér upp í 8. sætið með 16 stig.

Fyrri greinHörkukeppni á Akureyri
Næsta grein„Viljum reyna að spila fótbolta“