Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram um síðustu helgi en það var jafnframt síðasta mót vetrarins. Liðin frá fimleikadeild Selfoss áttu frábæra helgi og uppskáru vel eftir góðan vetur.
Á föstudeginum keppti meistaraflokkur, liðið var mjög sterkt, keyrði mikinn erfiðleika og gerðu hreinar æfingar. Þær uppskáru 3. sætið á gólfi og trampólíni og voru jafnar Gerplu í 2. sæti á dýnu eftir frábærar æfingar þar sem öll stökk voru lent. Samanlagt voru þær í 3. sæti, 0,55 stigum frá 2. sætinu.
Á laugardeginum keppti 3. flokkur í tveimur liðum í sitthvorri deildinni, A og B deild. Liðið sem keppti í B-deild hefur verið í miklum framförum í vetur en einhverjir hnökrar voru á æfingunum í keppni og þær náðu ekki alveg að skila öllu sínu. Þær lentu í 5. sæti í deildinni og geta vel við unað.
Liðið í A-deildinni átti gott mót heilt yfir og skilaði sínum æfingum vel. Þær voru í 2. sæti á dýnu, 3. sæti á gólfi og í 3. sæti samanlagt og uppskáru vel eftir mikla vinnu í vetur.
Laugardeginum var síðan lokað með frábærri frammistöðu 1. flokks þar sem þær sýndu framúrskarandi æfingar, lentu öll sín 36 stökk og sýndu stórglæsilegar gólfæfingar. Niðurstaðan var Íslandsmeistaratitill á öllum áhöldum og í samanlögðum árangri – svo sannarlega verðskuldaður árangur hjá liði sem hefur lagt mikið á sig í æfingum í vetur.
Það var síðan 2. flokkur mix sem lokaði helginni á sunnudeginum. Selfoss var eina liðið í þessum flokki og sýndi það miklar framfarir og lagði mikið á sig þrátt fyrir enga samkeppni. Liðið stóð uppi sem Íslandsmeistarar í 2. flokki blandaðra liða.