Tveir Sunnlendingar á Ólympíuleikum ungmenna

Íslenski keppnishópurinn. Snæfríður er í miðið í aftari röð og Martin Bjarni annar frá vinstri í fremri röð. Ljósmynd/ÍSÍ

Ólympíuleikar ungmenna voru settir á laugardagskvöld í Buenos Aires í Argentínu. Tveir sunnlenskir keppendur eru í níu keppenda hópi frá Íslandi.

Selfyssingurinn Martin Bjarni Guðmundsson keppir í fjölþraut í áhaldafimleikum og Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir í þremur sundgreinum.

Martin Bjarni var fyrstur Íslendinganna til að hefja keppni en hann keppti á bogahesti og í gólfæfingum í gær.

Á bogahestinum fékk Martin Bjarni einkunnina 10.533 og varð í 28. sæti af 35. keppendum í greininni. Í gólfæfingum náði Martin Bjarni sínum besta árangri, 13.250 stig sem tryggði honum 10. sæti af 34 keppendum í greininni. Að loknum tveimur greinum af sex er Martin Bjarni í 21. sæti samanlagt. Átján efstu keppendurnir að lokinni undankeppninni fá að keppa til úrslita.

Fimleikakeppnin heldur áfram hjá Martin Bjarna í dag en þá keppir hann í hringjum og stökki.

Snæfríður Sól hefur keppni í undanriðlum 100 m skriðsunds í dag en hún syndir í 6. riðli kl. 13:27 að íslenskum tíma. Úrslitin í 100 m skriðsundi eru á morgun en á miðvikudag er undankeppnin í 200 m skriðsundi sem er sterkasta grein Snæfríðar. Hún á Íslandsmetið í þeirri grein og stefnir nú á að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020.

Þriðji Sunnlendingurinn í íslenska hópnum er Örvar Ólafsson frá  Stóru-Hildisey sem er aðalfararstjóri á leikunum fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt íþróttafólk á aldrinum 15 til 18 ára.


Martin Bjarni keppti á bogahesti í gær. Ljósmynd/ÍSÍ

Fyrri greinBenna-gott
Næsta greinKambsmálið – Engu gleymt, ekkert fyrirgefið