Selfoss vann mikilvægan sigur á KFG á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1-3.
Heimamenn, sem eru í harðri botnbaráttu, voru sprækir framan af leik en Selfyssingar voru fyrri til að skora. Jökull Hermannsson fylgdi þá eftir með skoti úr teignum uppúr hornspyrnu Selfyssinga á 25. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Selfyssingar byrjuðu vel í seinni hálfleik en þrátt fyrir það náði KFG að jafna á 61. mínútu. Tveimur mínútum síðar tók Guðmundur Tyrfingsson á sprett og lagði boltann fyrir Hrvoje Tokic sem skoraði af öryggi, 1-2. Tokic gerði svo út um leikinn sjö mínútum síðar með góðu marki úr skyndisókn eftir sendingu frá Þór Llorens Þórðarsyni.
Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 29 stig, fjórum stigum á eftir Vestra. Næsti leikur liðsins er á heimavelli á sunnudag gegn Leikni F, sem hefur 34 stig í toppsætinu.