Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sigraði gríðarlega örugglega í kúluvarpi kvenna á JJ-mótinu í frjálsum sem fram fór á Laugardalsvelli í gærkvöldi.
Fjóla kastaði kúlunni lengst 8,66 m en var eini keppandinn í greininni svo sigurinn gat ekki orðið öruggari. Sömu sögu var að segja í 400 m grindahlaupi þar sem Fjóla hljóp ein – til sigurs – á mjög góðum tíma en mistök urðu í tímamælingu og því fékk hún tíma sinn ekki staðfestann.
Það sama var uppi á teningnum í 400 m hlaupi karla þar sem Haraldur Einarsson, HSK, virtist vera að bæta sig en tímamælingabúnaðurinn brást og enginn tími náðist. Haraldur var þriðji í hlaupinu.
Nýstúdentinn Þórhildur Helga Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, varð önnur í 100 m hlaupi kvenna á tímanum 12,94 sekúndur.
Aron Kárason, HSK, varð þriðji í hástökki karla, stökk 1,80 m, líkt og keppinautar hans í 1. og 2. sæti en allir felldu þeir 1,85 m þrívegis. Aron þurfti hins vegar tvær tilraunir við 1,80 m og því varð hann þriðji.
Sandvíkingurinn Anna Pálsdóttir, Umf. Selfoss, tryggði sér bronsverðlaun í spjótkasti kvenna með kast upp á 39,44 m sem er nýtt Selfossmet.
Þá varð Dagur Fannar Magnússon, Umf. Selfoss, varð þriðji í kúluvarpi karla en lengsta kast hans var 9,85 m.