Keppendur frá frjálsíþróttadeild Umf.Selfoss gerðu mjög góða ferð á Silfurleika ÍR sem fram fóru á dögunum.
Eva Lind Elíasdóttir, Umf. Þór, stóð sig frábærlega í kúluvarpi er hún kastaði 12.40m og náði lágmarki í Afrekshóp FRÍ en í þeim hópi eru einungis allra bestu unglingar landsins. Eva Lind bætti níu ára gamalt HSK met Kristbjargar Helgu um 19cm og sinn fyrri árangur um 1.25m og hlaut gullverðlaun í flokki 15-16 ára.
Andrea Sól Marteinsdóttir, Umf. Selfoss, kastaði kúlunni til sigurs í flokki 14 ára telpna er hún bætti sig um 1.14m og kastaði 11.94m. Andrea Sól bætti HSK met Bryndísar Láru um 52cm. Thelma Björk Einarsdóttir, Umf.Selfoss, hlaut silfurverðlaun í kúluvarpi með bætingu er hún kastaði 11.65m sem er einnig lengra en gamla metið.
Guðrún Heiða Bjarnadóttir, Umf. Selfoss, keppti í fjórum greinum í flokki 14 ára og uppskar gull í þeim öllum. Hún byrjaði á því að bæta sig í 60m hlaupi er hún kom fyrst í mark á tímanum 8,38s en hún átti best 8,46s, Guðrún Heiða náði lágmarki í Úrvalshóp unglinga hjá FRÍ með þessum árangri. Hún stórbætti sig í 200m hlaupi er hún kom fyrst í mark á tímanum 27,54s en átti best áður 28,85s. Í þrístökki bætti hún sig um 48cm þegar hún stökk 9.95m og að lokum sigraði hún í 60m grindahlaupi á tímanum 10,18s.
Annar snjall hlaupari frá Selfossi, Hermann Snorri Hoffritz, vann silfurverðlaun í flokki 14 ára á tímanum 8,31s og hann bætti sinn besta tíma í 200m er hann hljóp á tímanum 28,83s.
Sigþór Helgason vann þrenn gullverðlaun í flokki 13 ára stráka. Í hástökki stökk hann 1,55 m, í kúluvarpi með 12,76 m og í þrístökki er hann stökk 10,83 m. Í 60 m grindahlaupi var hann í 2.sæti á tímanum 9,66 sek. Sigþór keppti í sex greinum og bætti sinn árangur verulega í þeim öllum.
Andrea Vigdís Victorsdóttir setti Selfossmet í 800m hlaupi er hún kom önnur í mark í flokki 13 ára telpna á tímanum 2.49,52 mín og hún bætti sinn árangur í fjórum greinum. Teitur Örn Einarsson, 12 ára, varð annar í kúluvarpi með 11,31 m og bætti sinn árangur í þremur greinum.
Í flokki 11 ára stelpna skiptust þær Harpa Svansdóttir og Halla María Magnúsdóttir á að fara á verðlaunapallinn. Harpa vann þrístökkið er hún stökk 9,11 m, hún varð þriðja í hástökki með 1,30 m og einnig í 800 m hlaupi á tímanum 2.49,52 m. Halla vann 60 m hlaupið á 8,14 sek og kúluvarpið með 7,62 m og í þrístökkinu varð hún í öðru sæti með 9,05 m. Þær stöllur bættu sig einnig í flestum greinum.