Selfoss og Fram skildu jöfn, 2-2, á Framvellinum í Safamýri í dag þegar keppni hófst í 1. deild karla í knattspyrnu.
Aðeins var rúm mínúta liðin af leiknum þegar Ingi Rafn Ingibergsson fékk langa sendingu innfyrir vörn Framara og hann kláraði færið af öryggi. Tíu mínútum síðar kom önnur löng sending fram völlinn, nú á Kristófer Pál Viðarsson sem slapp innfyrir og skoraði. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik þrátt fyrir góðar sóknir beggja liða.
Framarar léku með vindinn í bakið í síðari hálfleik þar sem gekk á með éljum og ýmsum veðrabrigðum. Fram minnkaði muninn í 1-2 á 60. mínútu eftir klafs í teignum og átta mínútum síðar jöfnuðu þeir metin með marki beint úr aukaspyrnu sem fór í gegnum varnarvegg Selfoss.
Lokakafli leiksins var bráðfjörugur og æsispennandi en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Lokatölur 2-2.