Selfoss vann öruggan sigur á botnliði HK/Víkings í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossvelli urðu 2-0.
„Við vorum mjög góðar í fyrri hálfleik en svo dettur þetta pínulítið niður í byrjun seinni hálfleiks. Við ætluðum auðvitað að keyra á þær og ná þriðja markinu en HK/Víkingur var svosem ekki að skapa neitt. En svo tókum við leikinn yfir aftur á lokakaflanum og hefðum getað skorað fleiri mörk… en… tvö núll, hreint lak, þrjú stig, ánægður,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Kláruðu leikinn í fyrri hálfleik
Þær vínrauðu gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik þar sem Selfoss hafði mikla yfirburði. Grace Rapp kom þeim yfir strax á 9. mínútu eftir frábæran undirbúning Bergrósar Ásgeirsdóttur og á 29. mínútu tvöfaldaði Barbára Sól Gísladóttir forystu Selfoss með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Hólmfríði Magnúsdóttur. Selfyssingar óðu í færum í fyrri hálfleik en mörkin urðu ekki fleiri.
Seinni hálfleikurinn var mun tíðindaminni en HK/Víkingur komst þá meira inn í leikinn án þess þó að skapa sér færi. Selfyssingar fengu nokkur hálffæri og Brynja Valgeirsdóttir átti meðal annars þrumuskot í þverslána af löngu færi, auk þess sem Audrey Baldwin, markvörður HK/Víkings, varði frábærlega frá Karitas Tómasdóttur á lokakaflanum.
Baráttan um 3. sætið
Selfoss hefur fest sig í sessi í 4. sætinu og hefur nú 19 stig og markmið liðsins er örugglega að ná 3. sætinu af Þór/KA sem situr þar með 20 stig.